Categories
Uncategorized

Hvaða fallega barn er þetta í raun og veru?

Hvaða fallega barn er þetta í raun og veru?

Er þetta Sigrún á sjúkrahúsinu á Akureyri um jólin 1955?

Bókin Sigríður á Tjörn – minningar og myndbrot frá langri æfi hefur fengið góðar viðtökur eins og sjá má á því að hún var endurprentuð fyrir jólin í betrumbættri útgáfu. Ekki skal tilgreina þau jákvæðu viðbrögð sem hún hefur fengið, en þau eru alveg yfirgnæfandi.

Hér skal hins vegar tilgreina eina athugasemd um mynd í bókinni sem virðist styðjast við mikilsverð rök og því ástæða til að greina frá. Þórarinn Hjartarson skrifar systkinum sínum fésbókarfærslu:

„Í mig hringdi Gyða Vilborg Jóhannesdóttir á Akureyri og tjáði mér að myndin af Diddu [Sigrúnu] á bls. 81 væri í raun af sér. Hún sagðist eiga frummyndina og hún vissi ýmislegt um hana. Erlingur Davíðsson Dagsritstjóri hefði tekið hana og gefið foreldrum hennar hana þarna árið 1955 (var kunnugur þeim). Og jólasveinninn væri Ólafur Magnússon frá Mosfelli. Ég fletti upp í Degi þetta ár og sé myndina 21. des og þar er raunar önnur mynd af (sjálfsagt sama) jólasveini á Ak. og hann þar nafngreindur Ólafur Magnússon frá Mosfelli (þekktur söngvari, kom fljúandi frá Rvík segir Dagur). Þess má geta að Gyða Vilborg er fædd 1949 og því 6 ára þegar þessi mynd er tekin. Hvað segið þið? Munið þið eftir umtali um þessa mynd í Degi þarna í gamla daga? Við rákumst alla vega á hana í sambandi við vinnuna í Spor eftir Göngumann og þar er hún birt sem blaðaúrklippa. Magga [Margrét Guðmundsd] fann hana svo á Minjasafninu og mamma hefur haft hana upp á vegg síðan. Hvað segið þið?“

Umrædd mynd er nr. 42 í myndaalbúminu hér á heimasíðunni sigriduratjorn.is. Við Tjarnarsystkin höfum svo rætt þessa spurningu á fésbókinni. Gyða Vilborg virðist hafa sterk rök fyrir sínu máli. Okkar rök eru þau að myndin er nauðalík Sigrúnu og hún var á Fjórðungssjúkrahúsinu þessi jól. Móðir hennar hefur haft hana uppi á vegg í áratugi og segist ekki hlusta á að hún sé af öðru barni. Einhver systkini þykjast muna eftir tilveru þessarar blaðamyndar frá tímanum 1955/56 en treysta þó varlega slíkum minningum. Þannig að við látum spurninguna standa opna hvaða fallega barn þetta í raun og veru er á bls 81.

Categories
Uncategorized

Pantaðu eintak af bókinni hennar Sigríðar

Pantaðu eintak af bókinni hennar Sigríðar á Tjörn

Hér er hægt að leggja inn pöntun fyrir bók Sigríðar á Tjörn. Verðið á bókinni í gegnum þessa síðu er 4500 krónur. Þú skráir inn þínar upplýsingar í reitina hér að neðan og við munum svo hafa samband við þig fljótlega varðandi greiðslu og afhendingu. Einnig má senda fyrirspurnir á netfangið steinunnhj@gmail.com.